Undirbúningur LÝSU í fullum gangi

LÝSA – Rokkhátíð samtalsins verður haldin í þriðja sinn í Hofi á Akureyri 6. og 7. september. LÝSA er fyrir alla þegna samfélagsins og er mikilvægur vettvangur til að ræða málefni líðandi stundar og byggja brú milli almennings, félagasamtaka og stjórnmálafólks. Á hátíðinni fara fram bæði áhugaverðar og mikilvægar umræður sem snerta okkur öll og er markmiðið að hvetja allar stéttir samfélagsins til samtals.

Nú þegar hafa borist margar góðar skráningar frá fyrirtækjum og félagasamtökum og stefnir því í spennandi og fjölbreytta dagskrá. Enn er þó nóg pláss fyrir fleiri viðburði og því eru allir sem vilja standa fyrir einhvers konar viðburði, svo sem málstofu, fyrirlestri, pallborðsumræðum eða sófaspjalli hvattir til að skrá sinn viðburð á lysa.is/skraning.

Sem dæmi um viðburði á dagskránni í ár má nefna að Sölvi Tryggva verður með vinnusmiðju um hvernig við getum sigrað streituna, Bandalag háskólamanna mun ræða um áhrif fjórðu iðnbyltingunnar og Heimili og skóli verða með málstofu um hatursorðræðu (No hate).

Dagskráin verður brotin upp með alls kyns uppákomum svo sem uppistandi og tónlist, Guðrún Sóley fær Jón Gnarr og fleiri góða gesti í sófaspjall og þá munu Jón Ólafs og Stebbi Hilmars skemmta gestum og hita upp fyrir tónleika í Hamraborg á laugardagskvöldinu.

Enginn aðgangseyrir er á hátíðina fyrir almenning og eru allir hvattir til að taka 6.-7. september frá fyrir þessa spennandi hátíð!