Umhverfismálin áberandi á LÝSU

Fjölmörg viðfangsefni verða til umræðu á LÝSU en meðal þeirra eru umhverfismálin. Má þar nefna að Norðurlönd í fókus munu sýna heimildarmyndina UseLess, en hún fjallar um tísku- og matarsóun sem fer sífellt vaxandi og er orðið að stóru samfélags- og umhverfisvandamáli. Markmið myndarinnar er að vekja okkur til umhugsunar og veita innblástur um hvernig við, hvert og eitt, getum lagt okkar að mörkum og breytt litlum hlutum í hinu daglega lífi, sem geta skipt sköpum. Myndin verður sýnd í Hamraborg föstudaginn 7. september kl. 18.00. Að sýningu lokinni standa framleiðendur myndarinnar fyrir opinni umræðu um innihald myndarinnar. 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun verða einnig til umræðu á hátíðinni, en Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi munu kynna áætlanir ríkisstjórnar um innleiðingu markmiðanna á Íslandi. Norðurlönd í fókus í samstarfi við Norræna félagið vekja jafnframt athygli á verkefnum sem styðja heimsmarkmiðin auk þess sem tilkynntar verða tilnefningar til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2018. Þema verðlaunanna í ár er verndun lífsins í hafinu, sem er einmitt eitt af markmiðunum. Auk þessa mun Landvernd halda málþing um hlutverk og tækifæri sveitarfélaga í loftlagsmálum og Samfylkingin verður með kynningu og umræður um plastmengun í hafinu, áhrif hennar, og hvernig við sem þjóð og samfélagsþegnar getum unnið gegn henni. 

Drög að dagskrá hátíðarinnar má finna hér.