Ráðherra styrkir Fund fólksins

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur gert samning við Almannaheill – Samtök þriðja geirans um að veita félaginu fjárstuðning til að standa fyrir lýðræðishátíð að norrænni fyrirmynd undir yfirskriftinni Fundur Fólksins. Samingurinn sem er til tveggja ára, 2016 og 2017.

Fundur Fólksins var haldinn í fyrsta skipti hér á landi í júní í fyrra (2015). Framkvæmdin var í höndum Norræna hússins sem skapaði fundinum umgjörð með þátttöku 40 félagasamtaka sem stóðu fyrir yfir 150 dagskrárliðum. Fundurinn var haldinn í anda sambærilegra viðburða sem hafa fest sig í sessi á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár, svo sem Almendalsveckan á Gotlandi í Svíþjóð, Folkemødet á Bornholm í Danmörku og Arendalsuka í Noregi.

Samkvæmt samingnum er stefnt að því að Fundur Fólksins verði árlegur viðburður þar sem vettvangur skapast fyrir umræður og skoðanaskipti á breiðum grundvelli með aðkomu allra mögulegra aðila sem vilja hafa áhrif á samfélagið og þróun þess til góðs. Félagið Almannaheill mun annast skipulag fundarins og fær samkvæmt samningnum fjögurra milljóna króna fjárframlag á þessu ári og sömu fjárhæð árið 2017 til stuðnings framkvæmdinni.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði við undirritun samningsins að markmiðið með fundi fólksins væri að auka traust og skilning milli aðila samfélagsins án þess að vera föst í venjubundnum umræðufarvegi stjórnmála eða fjölmiðla: „Árið 2014 átti ég þess kost að sækja fund fólksins í Almedalen í Svíþjóð. Ég heillaðist algjörlega af þeirri upplifun, því þar hefur tekist að skapa vettvang fyrir vandaða umræðu um öll möguleg málefni samfélagsins og að virkja samtal milli almennings og stjórnmálamanna. Ég sé fyrir mér að hér á landi geti Fundur Fólksins orðið slíkur vettvangur og liður í því að byggja upp traust í samfélaginu.“

Ketill Berg Magnússon, stjórnarformaður Almannaheilla segir stuðning velferðaráðuneytisins afar mikilvægan fyrir umgjörð Fundar Fólksins. Hann vonast til að fleiri stuðningaaðilar bætist í hópinn og tryggi þannig að hægt sé að halda hér á landi slíka lýðræðishátíð þar sem fólk eigi samtal við stjórnmálafólk og félagasamtök um mikilvægt málefni samfélagsins til að auka gagnkvæman skilning og traust. Sjaldan hafi mikilvægi slíkrar umræðu verið jafn ljós og einmitt núna.