Lýðheilsa og heilbrigðismál í brennidepli

Meðal áberandi viðfangsefna á hátíðinni í ár snúa að bættri lýðheilsu og heilbrigðisþjónustu á Íslandi og munu ýmsir aðilar frá heilbrigðisgeiranum kynna störf sín. Félagasamtökin Farsæl öldrun stendur fyrir málstofu þar sem umræðan snýst um hvort farsæl öldrun sé möguleg þrátt fyrir heilsubrest á þá hvernig. Það er ekki vanþörf á þeirri umræðu þar sem góð heilsa er að flestra mati mikilvæg forsenda farsællar öldrunar, en ekki er allt eldra fólk svo heppið að halda heilsunni. Einnig verður Norðurlönd í fókus og Norræna félagið með kynningu á Velferðartækni sem miðar að því að nýta tækni og snjalllausnir til að bæta lífsgæði fólks þrátt fyrir öldrun, fötlun eða veikindi.

Félag sjúkraþjálfara stendur fyrir tvennum viðburðum. Annars vegar verður haldin kynning á tilraunaverkefni sem snýr að aðkomu sjúkraþjálfara í heilsugæslu á Heilbrigðisstofnun Austurlands, og hvernig sú aðkoma hefur stuðlað að bættri þjónustu og minna álagi á heilsugæslulæknum. Hins vegar verður framsaga og umræður um tengsl líkamlegrar og andlegrar heilsu, og tengsl áfalla við líkamleg einkenni. Sjúkraþjálfarar vilja vekja athygli á mikilvægi þess að horft sé heildstætt á þá einstaklinga sem leita til heilbrigðiskerfisins.

Miðstöð í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands fjallar einnig um þetta viðfangsefni þegar Jóhanna E. Torfadóttir, rannsóknarsérfræðingur, kynnir vísindarannsókn um áfallasögu kvenna. Miðar rannsóknin að því að auka þekkingu á tíðni áfalla og áhrifum þeirra á sálræna og líkamlega heilsu kvenna.

Háskólinn á Akureyri stendur meðal annars fyrir viðburðunum Geta hjúkrunarfræðingar pissað standandi?“ sem fjallar um rannsóknarniðurstöður og sögur karlkyns hjúkrunarfræðinga, og „Innleiðing fjölskylduhjúkrunar á SAk“ sem snýr að bættri þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri.

Umræðan um streitu og kulnun í starfi hefur verið í áberandi í fjölmiðlum og víðar upp á síðkastið og mun sú umræðan einnig eiga sér stað á LÝSU. AkureyrarAkademían í samstarfi við VIRK starfsendurhæfingu standa fyrir viðburði undir yfirskriftinni Kulnun er ekki einkamál!“, þar sem umfjöllun, reynslusögur og rannsóknarniðurstöður um viðfangsefnið verða kynntar auk þess sem boðið verður upp á pallborð og umræður.

Ólafur Stefánsson hugar að andlegri heilsu og verður með smiðju þar sem finna má sambland af hugleiðslu, sögustund og tónheilun.

Auk þessa verður Krabbameinsfélagið með örerindi báða dagana með titlinum Má maður aldrei neitt?“ þar sem fræðslufulltrúi félagsins mun fjalla um hvernig hægt er að draga úr líkunum á því að fá krabbamein.