Ingibjörg Gréta ráðin verkefnastjóri

Ingibjörg Gréta Gísladóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Fundar Fólksins.

Ingibjörg Gréta  hefur langa og víðtæka reynslu af skipulagningu og markaðssetningu viðburða. Hún er eigandi Rigga.is sem sérhæfir sig í viðburðum og markaðssamskiptum og stýrði nú síðast framkvæmd stórsýningarinnar Verk og vit 2016. Þar á undan var hún framleiðandi RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík 2014-2015. Þá er hún einnig eigandi Reykjavík Runway sem sér um markaðssetningu hönnunar á alþjóðamarkaði.

Ingibjörg er með MsC í Nýsköpun og frumkvöðlafræði við Háskólann á Bifröst. Áður hafði hún lokið leikaraprófi frá Leiklistarskóla Íslands.

Að sögn Ingibjargar er mikið og spennandi verk fyrir höndum við að kynna hátíðina sem að hennar mati er mikilvægur liður í samfélagsumræðunni: „Það er skortur á vönduðum vettvangi sem þessum þar sem allir geta komið saman, rætt málin á jafningjagrundvelli og þróað eðlilegri samskipti við ráðamenn þjóðarinnar“, segir Ingibjörg. „Hátíðin er einstaklega vel tímasett í ár, rétt fyrir kosningar, sem gefur þjóðinni gullið tækifæri til að ræða málin af hreinskilni um hvernig samfélag við viljum búa í.“

Fundur fólksins er sjálfstæð hátíð, ekki rekin í hagnaðarskyni og ekki stýrt af sérhagsmunum á Íslandi eða annarsstaðar. Hátíðin var fyrst haldin á Íslandi í júní á síðasta ári en sambætilegar hátíðir eru orðnar ómissandi hluti af hverju sumri á hinum Norðurlöndunum . Sú þekktasta er Almedalsveckan í Svíþjóð sem er orðin einn stærsti og mikilvægasti vettvangur sænskrar samfélagsumræðu, suðupottur hugmynda þar sem alvöru fólk hlustar og ræðir saman í eigin persónu. Það er ósk þeirra sem standa að Fundi fólksins nú að hátíðin verði slíkur vettvangur fyrir íslensku þjóðna.

Framkvæmdaaðili hátíðarinnar er Almannaheill og aðrir bakhjarlar eru Velferðarráðuneytið, Reykjavíkurborg og Norræna húsið.

Á myndinni eru þau Ketill Berg Magnússon, stjórnarformaður Almannaheilla og Ingibjörg Gréta Gísladóttir nýráðinn verkefnastjóri Fundar Fólksins.