Hressandi skemmtidagskrá

Landsþekktir listamenn munu standa fyrir ýmsum skemmtiatriðum og uppákomum á LÝSU – rokkhátíð samtalsins í ár. Rithöfundarnir Auður Jónsdóttir, Hallgrímur Helgason og Guðmundur Andri standa fyrir höfundaspjalli seinni part föstudags með yfirskriftinni „Er rithöfundur samfélagsrýnir?“. Hér gefst gestum tækifæri á að hlýða á og taka þátt í umræðu um hlutverk rithöfunda í samfélaginu, en umræðunum stjórnar Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri.

Í framhaldinu mun tónlistarmaðurinn Snorri Helgason leika nokkur lög af nýjustu plötu sinni Margt býr í þokunni, sem er safn laga sem Snorri hefur samið við íslensku þjóðsögurnar. Á föstudagskvöldinu standa Alþýðusamband Íslands og Starfsgreinasamband Íslands fyrir „Pubquiz verkalýðsins“ á Götubarnum, þar sem gestir geta látið reyna á kunnáttu sína um verkalýðsmál, dægurmál og ýmis önnur mál.

Laugardagurinn hefst á vinnustofu Ólafs Stefánssonar, handboltahetju, þar sem þemað er ný bók hans, Gleymna óskin. Vinnustofan inniheldur bæði leikfyrirlestur með spuna, auk sögustundar, hugleiðslu og tónheilunar. Seinni part laugardags stendur skáldið og rapparinn Kött grá pje fyrir örsmiðjunni „Að skrifa og segja fokk, heilbrigð tjáskipti“, þar sem hann fjallar um skriftir, manngæsku og tjáningu í ákaflega bjöguðum skilningi.

Undir lok hátíðarinnar á laugardeginum munu Jónas Sig og Stefán Bogi setjast í sófann og spjalla um vel valin málefni sem þeir eru langt því frá sammála um. Í kjölfarið ætla Saga Garðars og Dóri DNA að skemmta gestum með uppistandi, þar sem þau rýna í samfélagsmál á stórskemmtilegan hátt. Hátíðinni lýkur með því að Saga býður gestum að taka þátt í að matbúa svokallaða Diskósúpu í boði 1862, Bakarísins við brúnna og Nettó, unnin úr mat sem annars hefði verið sóað, og geta gestir gætt sér á Diskósúpunni, við tóna frá Jónasi Sig.

 

Dagskrá Lýsu má finna hér.