Gott fólk, fundurinn er að hefjast!

 

Fundur fólksins er merkileg lýðræðishátíð, nú haldin hér á landi í þriðja sinn og því hægt að segja að hún hafi fest sig í sessi.

Almenn þátttaka sem flestra í umræðum um samfélagsleg málefni er mikilvæg forsenda virks lýðræðis. Lýðræði í orði og á borði, þar sem raddir fólks fá að heyrast, þar sem ólík sjónarmið fá notið sín, þar sem allri umræðu er fagnað svo lengi sem hún er málefnaleg og heiðarleg.

Hér verður starfsemi á vegum félagasamtaka, stjórnmálaflokka og stofnana og margvísleg málefni verða krufin til mergjar, samhliða upplýsingagjöf, kynningum og fræðslu um hvaðeina. Stjórnmálamenn munu sitja fyrir svörum og umræður eiga örugglega eftir að vera líflegar og skemmtilegar.

Við skulum ekki gleyma því að þetta er hátíð. Við skulum því leyfa gleðinni að ríkja þótt hér verði fjallað um mikilvæg málefni. Hér kemur fólk saman til að fagna lýðræðinu og halda upp á það í orði og verki auk þess sem hátíðisdagarnir verða kryddaðir með tónlistaratriðum og ýmsum uppákomum.

Ég þakka Almannaheillum – samtökum þriðja geirans og Menningarfélagi Akureyrar fyrir að gera þessa hátíð að veruleika og það er ánægjulegt að hún skuli haldin í höfuðstað Norðurlands að þessu sinni.

Gott fólk, njótum fundarins, fögnum lýðræðinu og tökum virkan þátt í hátíðinni.

 

Góða skemmtun.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra