7. og 8. september 2018

LÝSA – rokkhátíð samtalsins fer fram 7. og 8. september 2018 í Hofi Akureyri.

Markmið hátíðarinnar er að hvetja til uppbyggjandi skoðanaskipta milli almennings, félagasamtaka og stjórnmálafólks. Á LÝSU gefst tækifæri til að varpa ljósi á málefni, eiga í samtali við almenning og ráðamenn og leita eftir stuðningi við hagsmunamál. Allir geta tekið þátt í hátíðinni. Einu skilyrðin eru þau að viðburðir hafi samfélagslega tengingu, séu opnir öllum og gestum að kostnaðarlausu.

Á LÝSU kemur fólk alls staðar að af landinu saman og á samtal um samfélagið.

LÝSU er á margan hátt hægt að líkja við tónlistarhátíð – rokkhátíð samtalsins. Ástæðan fyrir því að fólk sækir tónlistarhátíðir er sú að það vill heyra tónlistina flutta milliliðalaust, verða vitni að því þegar galdurinn á sér stað og upplifa stemninguna með vinum og vandamönnum. Það sama á við um hátíðir á borð við LÝSU. Fólk sækir þær því það vill heyra orðin sögð í eigin persónu, án þess að skilaboðin séu bjöguð í meðförum annarra. Það vill upplifa stemninguna og kraftinn sem er í loftinu og verða innblásið af samtalinu sem á sér stað. Stjórnmálafólk vill fá tækifæri til að tala milliliðalaust við kjósendur, taka þátt í málefnalegu samtali og hlusta á íbúa landsins. Á sambærilegum hátíðum á Norðurlöndum eiga sér stað áhrifarík samskipti, þar eru teknar mikilvægar ákvarðanir og því samtali vill enginn missa af.

LÝSA stuðlar að samtali milli atvinnulífs, stjórnmála, almennings og hagsmunaafla á nýstárlegan hátt. Samtalið fer fram fyrir opnum tjöldum þar sem aðilar kynna sín hagsmunamál og fá til sín sérfræðinga sem styðja málefnin með rökum. Niðurstöður rannsókna eru kynntar og nýjar áherslur eru lagðar hjá félögum.

Það eru þátttakendur í hátíðinni sem ákveða hvers konar fundir og málstofur eru haldnar og bera þeir sjálfir ábyrgð á sínum viðburðum og að fá til sín fundarstjóra og þátttakendur. Skipuleggjendur hátíðarinnar raða niður dagskráratriðum og reyna að gæta þess að í henni sé jafnvægi svo hún endurspegli samfélagið allt. Hátíðin sjálf stendur fyrir setningu, lokaathöfn, fjölskyldudagskrá og stuttum skemmtiatriðum sem brjóta upp dagskrána.

Nýtt nafn: LÝSA – upplýsandi hátíð um samfélagsmál

LÝSA – upplýsandi hátíð um málefni samfélagsins, fer fram dagana 7.-8. september 2018 í Menningarhúsinu Hofi, Akureyri. LÝSA er nýtt nafn á Fundi fólksins og var nafnið valið með tilliti til þess að á hátíðinni fer fram upplýsandi samtal milli almennings og ráðamanna. Á LÝSU gefst tækifæri til að varpa ljósi á málefni líðandi stundar og leita eftir stuðningi við hagsmunamál.

Gott fólk, fundurinn er að hefjast!

 

Fundur fólksins er merkileg lýðræðishátíð, nú haldin hér á landi í þriðja sinn og því hægt að segja að hún hafi fest sig í sessi.

Almenn þátttaka sem flestra í umræðum um samfélagsleg málefni er mikilvæg forsenda virks lýðræðis. Lýðræði í orði og á borði, þar sem raddir fólks fá að heyrast, þar sem ólík sjónarmið fá notið sín, þar sem allri umræðu er fagnað svo lengi sem hún er málefnaleg og heiðarleg.

Hér verður starfsemi á vegum félagasamtaka, stjórnmálaflokka og stofnana og margvísleg málefni verða krufin til mergjar, samhliða upplýsingagjöf, kynningum og fræðslu um hvaðeina. Stjórnmálamenn munu sitja fyrir svörum og umræður eiga örugglega eftir að vera líflegar og skemmtilegar.

Við skulum ekki gleyma því að þetta er hátíð. Við skulum því leyfa gleðinni að ríkja þótt hér verði fjallað um mikilvæg málefni. Hér kemur fólk saman til að fagna lýðræðinu og halda upp á það í orði og verki auk þess sem hátíðisdagarnir verða kryddaðir með tónlistaratriðum og ýmsum uppákomum.

Ég þakka Almannaheillum – samtökum þriðja geirans og Menningarfélagi Akureyrar fyrir að gera þessa hátíð að veruleika og það er ánægjulegt að hún skuli haldin í höfuðstað Norðurlands að þessu sinni.

Gott fólk, njótum fundarins, fögnum lýðræðinu og tökum virkan þátt í hátíðinni.

 

Góða skemmtun.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra

Umræður um Fund fólksins í Samfélaginu í nærmynd

Þuríður Helga Krisjánsdóttir

Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Fundar fólksins var í viðtali hjá umsjónarmanni Samfélagsins í nærmynd, Leifi Haukssyni, í dag. Þar ræddi Þuríður um dagskrárefni hátíðarinnar í ár ásamt þess að kynna hugmyndafræðina að baki Fundi fólksins. 

(meira…)

Taktu þátt, þín rödd er mikilvæg!

Lýðræðishátíðin Fundur fólksins fer fram að þessu sinni dagana 8. og 9. september í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Hátíðin er í ár haldin í þriðja skipti, en þetta er í fyrsta sinn sem hún fer fram utan höfuðborgarsvæðisins. Fundur fólksins sækir innblástur sinn í sambærilegar hátíðir sem haldnar eru á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum. Hátíðinni er ætlað að virkja lýðræðisþátttöku almennings og skapa vettvang til þess að ræða málefni samfélagsins.
Við fengum Ketil Berg Magnússon formann Almannaheilla til þess að ræða við okkur um Fund fólksins og reynslu félagsins sem hann er í forsvari fyrir af þátttöku á hátíðinni.

Fundur fólksins er opin almenningi án endurgjalds og hægt er að skrá viðburði á hátíðina HÉR.

 

Tölum saman, taktu þátt!

Gleðiefni að fá Fund fólksins til Akureyrar

Almannaheill – Samtök þriðja geirans hafa samið við Menningarfélag Akureyrar um framkvæmd á lýðræðishátíðinni Fundur fólksins sem haldinn verður dagana 8. og 9. september í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Haldnir hafa verið tveir vel sóttir kynningarfundir um hátíðina annars vegar í Reykjavík og hins vegar á Akureyri.

 

Fundur fólksins er nú haldinn í þriðja sinn, í fyrri skiptin fór fundurinn fram við Norræna húsið í Reykjavík. Þetta er því í fyrsta sinn sem fundurinn er haldin utan höfuðborgarsvæðisins sem færir hátíðinni frekari sérstöðu og gerir hana líkari sambærilegum hátíðum erlendis s.s. Almedalsveckan á Gotlandi í Svíþjóð, Folkemødet á Bornholm í Danmörku og Arendalsuka í Noregi.

Á lýðræðishátíðina Fund fólksins mætir fólk sem vill taka þátt í suðupotti þar sem raddir fólksins í landinu heyrast. Félagasamtök um allt land taka þátt í dagskránni sem samanstendur af óformlegum og formlegum fundum, uppákomum, tónlist, gleði og glaumi. Markmið hátíðarinnar er að efla rödd almennings, koma skoðunum á framfæri og ræða málefni samfélagsins. Fundur fólksins er því kjörinn vettvangur fyrir hópa og félagasamtök að standa fyrir málstofum, pallborðsumræðum, kynningum á ákveðnum málefnum, sýna sig og sjá aðra á þeim forsendum að allir skipta máli. Allir geta tekið þátt og hægt er að skrá viðburði á heimasíðu hátíðarinnar fundurfolksins.is

 

,,Það er mikið gleðiefni að fá Fund fólksins til Akureyrar, hér er rík hefð fyrir því að almenningur taki þátt í samfélagsumræðu og fólk hefur sterkar skoðanir á málefnunum. Hátíðin mun gera félagasamtökum auðveldara að ná til félagsmanna utan höfuðborgarsvæðisins og vonandi almennings að ná til ráðmanna og öfugt“ segir Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Fundar fólksins.

Velferðarráðuneytið, Almannaheill, Akureyrarbær og Menningarfélag Akureyrar eru styrktaraðilar lýðræðishátíðarinnar.

Á myndinni eru:
Ketill Berg Magnússon, stjórnarformaður Almannaheilla og Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar og Fundar fólksins.

Morgunverðarfundir

Boðið verður til opinna morgunverðarfunda þar sem hátíðin verður kynnt fyrir áhugasömum aðilum, hvernig hún hefur nýst þeim sem tekið hafa þátt og hugmyndir að nálgunum til að koma málefnum á framfæri.

Í Reykjavík mánudaginn 15. maí kl. 9:00 í Norræna húsinu, boðið verður upp á kaffi og croissant.

 

Á Akureyri föstudaginn 19. maí kl. 10 í Menningarhúsinu Hofi, boðið verður upp á kaffi og croissant.

 

Góður dagur á Fundi Fólksins

Fyrri dagur Fundar Fólksins fór fram í gær og tókst hann vonum framar. Formleg opnun var kl. 11 þar sem Forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson flutti ávarp ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Í ávarpi sínu lagði forsetinn út af ákalli um breytingar á stjórnarskránni og rakti meðal annars að í forsetakosningunum í sumar hefðu allir frambjóðendur verið sammála um að það þyrfti að koma inn ákvæði í stjórnarskrána um að tiltekinn fjöldi kosningabærra manna gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild mál.
(meira…)

Góð stemmning á blaðamannafundi

Það var rífandi stemning á blaðamannafundi Fundar Fólksins í dag, þar sem glæsileg dagskrá hátíðarinnar var kynnt. Ingibjörg Gréta, verkefnastjóri sagði það gleðiefni að hátíðin í ár hefði tvöfaldast frá því í fyrra en í ár eru rúmlega 80 þátttakendur með um 100 viðburði. (meira…)

Ágrip af samræðum

Fundur Fólksins er vettvangur samræðna sem geta nýst við ákvarðanatöku í samfélaginu. Sú nýbreytni verður í ár að þátttakendum Fundar Fólksins sem skipuleggja umræður er gert að skila inn ágripi af þeim samræðum sem fara fram, spurningum og hugmyndum sem spretta upp.

Ágripin verða strax sett inn á vef hátíðarinnar og útprent hengd upp á fréttasnúrur hátíðarinnar og fundarherbergi þannig að áhugasamir geti lesið sér til um þær samræður sem fóru fram fyrr um daginn og geta gagnast til frekari umræðu á hátíðinni.

Eftir hátíðina verða ágripin gefin út á prenti og með stafrænum hætti svo áhugasamir aðilar, eins og þingmenn og fjölmiðlar geti áttað sig á hvaða málefni brenna á fólki og haldið áfram að vinna með þau.

Prentuðum útgáfum verður einnig skilað inn á Þjóðarbókhlöðu til varðveislu. Þá verður auðvelt fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar og aðra áhugasama að skoða hvaða samfélagsmálefni brunnu á þjóðinni árið 2016. Ætlunin er að ágripum af öllum umræðum verði safnað saman á Fundi Fólksins árlega hér eftir og því verður einnig áhugavert að skoða þróun umræðunnar í þjóðfélaginu um samfélags – og lýðræðismál.