LÝSA 2021

Menningarfélag Akureyrar hefur hug á að halda LÝSU á vordögum 2021. Til þess að hátíð sem þessi festi sig í sessi þarf breitt bakland og í undirbúningi er m.a. samstarf við Samtök sveitarfélaga á Norðausturlandi.

Það er von aðstandenda LÝSU að hátíðin festi sig í sessi hér á Akureyri.

Dagskrá LÝSU 2019

Dagskrá hátíðarinnar í ár er fjölbreytt en þar má finna yfir 50 viðburði.

Þú finnur dagskrá hátíðarinnar hér.

Dagskráin hefst á föstudagsmorgni m.a. með Stórþingi ungmenna og málþingi BHM um fjórðu iðnbyltinguna. Setning hátíðarinnar fer fram um hádegisbilið þar sem skemmtikrafturinn og fyrrum borgarstjórinn Jón Gnarr ávarpar gesti og Halla Björk Reynisdóttir setur hátíðina. Tónlistarfólkið Andrea Gylfadóttir og Kristján Edelstein skapa svo notalega stemningu með fallegri tónlist sinni og blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyrar flytur nokkur lög.

Eftir hádegi standa til að mynda SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fyrir viðburðum en klukkan 15:30 fær fjölmiðlakonan Guðrún Sóley Gestsdóttir, til sín góða gesti í sófaspjall undir yfirskriftinni Speglar listin samfélagið? Í sófann, til að tjá sýn sína á samfélagið, mæta Jón Gnarr, Matthías Tryggvi Haraldsson, listamaður og Hatari, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, teiknari og tónlistarskona og Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands. Tónlistarmaðurinn Mugison tekur svo nokkur lög.

Laugardagurinn hefst með krafti á fyrirlestrinum Fljúgðu inn í haustið með Sölva Tryggva. Líkt og með aðra viðburði Lýsu er fyrirlestur Sölva opinn öllum. Barnaheill, Landvernd, Umboðsmaður barna, Iðnfélögin, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Íslandsbanki og Alþingi eru á meðal viðburðahaldara á laugardeginum og eftir hádegi mun Lóa Hjálmtýs halda Myndasögusmiðju.

Klukkan 16 verður sófaspjall með Sölva Tryggva en hann fær til sín skemmtilega gesti til að ræða umdeild málefni. Eftir sófaspjallið er komið að uppistandi Snjólaugar Lúðvíksdóttur og svo upphitun Stefáns Hilmarssonar og Jóns Ólafssonar sem verða með spjalltónleika í Hamraborg um kvöldið.

Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi á LÝSU en nákvæma dagskrá er að finna hér á vefnum. Mögulegar breytingar og uppfærslur munu birtast jafnóðum á vefnum.

 

LÝSA býður gestum á Af fingrum fram tónleika

Eftir tvo daga af fjörugum umræðum á LÝSU – Rokkhátíð samtalsins, mun hátíðinni ljúka með dagskrárlið sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Laugardaginn 7. september mætir Jón Ólafsson í Hof með spjalltónleikana Af fingum fram og fær til sín engan annan en hinn ástsæla Stefán Hilmarsson. Þeir munu hita upp fyrir tónleikana í Hamragili kl. 17, en sjálfir tónleikarnir fara fram í Hamraborg kl. 20.

Almennt forsöluverð á tónleikana er 4720 kr. en gestum LÝSU gefst tækifæri á að fá frítt inn.
Til að nálgast frímiða þarf að mæta á að lágmarki þrjá viðburði LÝSU og skila inn þar til gerðu eyðublaði í miðasölu Hofs. Eyðublaðið má nálgast hjá starfsfólki LÝSU á hátíðinni sjálfri.

Hlustum, fræðumst og tölum saman

Ágætu gestir, verið hjartanlega velkomin á LÝSU – Rokkhátíð samtalsins.

Þegar það næst jafnvægi á milli þess að tala, fræðast og hlusta þá geta ýmsar góðar hugmyndir fæðst og skilningur fyrir fjölbreyttu og flóknu samfélaginu jafnvel aukist. Það er hinsvegar alls ekki alltaf raunin að þetta jafnvægi náist, ekki síst þegar umræðan er oftar en ekki komin á samfélagsmiðla þar sem við þurfum ekki að hlusta né fræðast frekar en við viljum og við sjáum aldrei framan í þann sem talar eða réttara sagt skrifar. Að hlusta, fræðast og tala er einn af fjölmörgum kostum LÝSU – Rokkhátíðar samtalsins. Sem þátttakandi í LÝSU getum við valið að veita fræðslu um áhugaverð málefni og í kjölfarið að bjóða upp á umræðu. Við getum líka mætt á LÝSU með það eitt í huga að velja úr fjölda áhugaverðra viðburða, fræðast og spyrja spurninga sem vakna. Það er stundum tilhneiging til að flokka fólk í „við“ og „þið“ eins og það sé einhverskonar gjá þarna á milli. Á LÝSU erum við öll á sama báti, við erum öll ein heild sem samfélag. Látum ekki þetta tækifæri fram hjá okkur fara. Tökum þátt í fjörugri og skemmtilegri dagskrá og sýnum að okkur sé annt um þann lýðræðislega rétt að koma saman, fræðast, tala og hlusta.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Undirbúningur LÝSU í fullum gangi

LÝSA – Rokkhátíð samtalsins verður haldin í þriðja sinn í Hofi á Akureyri 6. og 7. september. LÝSA er fyrir alla þegna samfélagsins og er mikilvægur vettvangur til að ræða málefni líðandi stundar og byggja brú milli almennings, félagasamtaka og stjórnmálafólks. Á hátíðinni fara fram bæði áhugaverðar og mikilvægar umræður sem snerta okkur öll og er markmiðið að hvetja allar stéttir samfélagsins til samtals.

Nú þegar hafa borist margar góðar skráningar frá fyrirtækjum og félagasamtökum og stefnir því í spennandi og fjölbreytta dagskrá. Enn er þó nóg pláss fyrir fleiri viðburði og því eru allir sem vilja standa fyrir einhvers konar viðburði, svo sem málstofu, fyrirlestri, pallborðsumræðum eða sófaspjalli hvattir til að skrá sinn viðburð á lysa.is/skraning.

Sem dæmi um viðburði á dagskránni í ár má nefna að Sölvi Tryggva verður með vinnusmiðju um hvernig við getum sigrað streituna, Bandalag háskólamanna mun ræða um áhrif fjórðu iðnbyltingunnar og Heimili og skóli verða með málstofu um hatursorðræðu (No hate).

Dagskráin verður brotin upp með alls kyns uppákomum svo sem uppistandi og tónlist, Guðrún Sóley fær Jón Gnarr og fleiri góða gesti í sófaspjall og þá munu Jón Ólafs og Stebbi Hilmars skemmta gestum og hita upp fyrir tónleika í Hamraborg á laugardagskvöldinu.

Enginn aðgangseyrir er á hátíðina fyrir almenning og eru allir hvattir til að taka 6.-7. september frá fyrir þessa spennandi hátíð!

Lýðheilsa og heilbrigðismál í brennidepli

Meðal áberandi viðfangsefna á hátíðinni í ár snúa að bættri lýðheilsu og heilbrigðisþjónustu á Íslandi og munu ýmsir aðilar frá heilbrigðisgeiranum kynna störf sín. Félagasamtökin Farsæl öldrun stendur fyrir málstofu þar sem umræðan snýst um hvort farsæl öldrun sé möguleg þrátt fyrir heilsubrest á þá hvernig. Það er ekki vanþörf á þeirri umræðu þar sem góð heilsa er að flestra mati mikilvæg forsenda farsællar öldrunar, en ekki er allt eldra fólk svo heppið að halda heilsunni. Einnig verður Norðurlönd í fókus og Norræna félagið með kynningu á Velferðartækni sem miðar að því að nýta tækni og snjalllausnir til að bæta lífsgæði fólks þrátt fyrir öldrun, fötlun eða veikindi.

Félag sjúkraþjálfara stendur fyrir tvennum viðburðum. Annars vegar verður haldin kynning á tilraunaverkefni sem snýr að aðkomu sjúkraþjálfara í heilsugæslu á Heilbrigðisstofnun Austurlands, og hvernig sú aðkoma hefur stuðlað að bættri þjónustu og minna álagi á heilsugæslulæknum. Hins vegar verður framsaga og umræður um tengsl líkamlegrar og andlegrar heilsu, og tengsl áfalla við líkamleg einkenni. Sjúkraþjálfarar vilja vekja athygli á mikilvægi þess að horft sé heildstætt á þá einstaklinga sem leita til heilbrigðiskerfisins.

Miðstöð í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands fjallar einnig um þetta viðfangsefni þegar Jóhanna E. Torfadóttir, rannsóknarsérfræðingur, kynnir vísindarannsókn um áfallasögu kvenna. Miðar rannsóknin að því að auka þekkingu á tíðni áfalla og áhrifum þeirra á sálræna og líkamlega heilsu kvenna.

Háskólinn á Akureyri stendur meðal annars fyrir viðburðunum Geta hjúkrunarfræðingar pissað standandi?“ sem fjallar um rannsóknarniðurstöður og sögur karlkyns hjúkrunarfræðinga, og „Innleiðing fjölskylduhjúkrunar á SAk“ sem snýr að bættri þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri.

Umræðan um streitu og kulnun í starfi hefur verið í áberandi í fjölmiðlum og víðar upp á síðkastið og mun sú umræðan einnig eiga sér stað á LÝSU. AkureyrarAkademían í samstarfi við VIRK starfsendurhæfingu standa fyrir viðburði undir yfirskriftinni Kulnun er ekki einkamál!“, þar sem umfjöllun, reynslusögur og rannsóknarniðurstöður um viðfangsefnið verða kynntar auk þess sem boðið verður upp á pallborð og umræður.

Ólafur Stefánsson hugar að andlegri heilsu og verður með smiðju þar sem finna má sambland af hugleiðslu, sögustund og tónheilun.

Auk þessa verður Krabbameinsfélagið með örerindi báða dagana með titlinum Má maður aldrei neitt?“ þar sem fræðslufulltrúi félagsins mun fjalla um hvernig hægt er að draga úr líkunum á því að fá krabbamein.

Að vera þátttakendur í því hreyfiafli sem samfélagsumræðan er

Eitthvað gerist í fréttum og kannski tekur maður ekki eftir því eða kannski er atburðurinn svo yfirgengilegur að maður dembir sér strax á netið til að sjá hvað öllum hinum finnst um hann. Hvort fleiri deili skynjun manns – eða skynji jafnvel eitthvað margslungnara, meira, dýpra. Eða ekki.

Það er í senn speglun og fróun að lesa upplifun og skoðanir annarra á öllu því sem gerist. Líka því sem maður vissi ekki að hefði gerst eða sem gæti gerst í beinu framhaldi af því, sé eitthvað að marka pælingar höfundar skoðanapistilsins sem maður rakst á – kannski eftir að hafa lesið nokkra aðra sem spegluðu einungis manns eigin skoðanir eða þá afgerandi skoðanir einhvers á andstæðum meiði.

Þegar ég hugsa út í það, þá geri ég mér ekki alltaf grein fyrir að hversu miklu leyti skoðanir mínar eru sjálfsprottnar og að hversu miklu leyti kokkaðar upp undir áhrifum skoðanna annarra. En ég veit að þær væru grynnri og einslitari án áhrifa frá skoðunum annarra. Og um leið styrkari að því leytinu að þegar ég les eitthvað sem ég er hjartanlega ósammála, þá fer ég í huganum yfir rök mín og spegla þau í andstæðum rökum. Í því ferli styrkjast þau og dýpka jafnvel því inn á milli alls þess sem maður er ósammála getur stundum leynst sannleikskorn.

Stundum er sagt að það sé of mikið af skoðanapistlum í íslenskum fjölmiðlum á kostnað fréttaskýringa og dýpri greininga. Kannski er svolítið til í því – eða kannski mætti vera meira af fréttaskýringum, án þess að það sé á kostnað skoðanapistla. Því allur þessi fjöldi skoðanapistla er kór ólíkra radda sem takast á; syngja sumar einum rómi meðan aðrar kallast á. Án þessa kórs væri hljómurinn hjáróma.

Og stundum verður önnur rödd til þess að maður skiptir um skoðun.

Það er svo nauðsynlegt að leyfa sér að skipta um skoðun, ef þannig liggur á, eða dýpka skoðanir sínar með því að taka aðrar til íhugunar. Oft er því haldið gegn fólki ef það hefur eitt sinn aðhyllst ákveðna skoðun og svo skipt henni út fyrir aðra. En það að skipta um skoðun er einungis merki um að manneskjan leyfi sér að hugsa, endurmeta og sjá hluti í nýju ljósi. Að persónugera sig eftir skoðunum sínum er hins vegar hæpnara.

Nýverið létust tveir menn sem ég drakk stundum morgunkaffi með í Kaffifélaginu á Skólavörðustíg. Þeir Jónas Kristjánsson blaðamaður og Stefán Karl Stefánsson leikari. Hvorugur þeirra lá á skoðunum sínum. Þeir létu í sér heyra ef þeim misbauð eitthvað og túlkuðu upplifun sína af veruleikanum, réttlæti og ranglæti, með því að gagnrýna og benda á það sem betur mætti fara í samfélaginu. Ég á eftir að sakna þeirra beggja en líka þess að heyra hressandi álit þeirra.

Mér varð hugsað til þeirra þegar ég var beðin um að skrifa þessi orð. Þeir voru ekki bara missir fyrir sína nánustu heldur líka samfélagið. Þessir menn sem þorðu alltaf að benda á hugsanlegt ranglæti og standa með réttlætinu. Með meitluðu orðalagi og frjóum huga. Hugarheimi sem við fengum inngöngu í til að stækka okkar, hvort sem við vorum sammála eða ekki.

Í svona fámennu samfélagi skiptir hver kröftug rödd máli. Hún getur fengið svo mörgu áorkað, eins og þessir tveir menn voru vitnisburður um. Því eigum við öll að þora að íhuga, rökræða og tjá skoðanir okkar. Og hafa gaman að því að vera þátttakendur í því hreyfiafli sem samfélagsumræðan er.

Auður Jónsdóttir, rithöfundur.

Hressandi skemmtidagskrá

Landsþekktir listamenn munu standa fyrir ýmsum skemmtiatriðum og uppákomum á LÝSU – rokkhátíð samtalsins í ár. Rithöfundarnir Auður Jónsdóttir, Hallgrímur Helgason og Guðmundur Andri standa fyrir höfundaspjalli seinni part föstudags með yfirskriftinni „Er rithöfundur samfélagsrýnir?“. Hér gefst gestum tækifæri á að hlýða á og taka þátt í umræðu um hlutverk rithöfunda í samfélaginu, en umræðunum stjórnar Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri.

Í framhaldinu mun tónlistarmaðurinn Snorri Helgason leika nokkur lög af nýjustu plötu sinni Margt býr í þokunni, sem er safn laga sem Snorri hefur samið við íslensku þjóðsögurnar. Á föstudagskvöldinu standa Alþýðusamband Íslands og Starfsgreinasamband Íslands fyrir „Pubquiz verkalýðsins“ á Götubarnum, þar sem gestir geta látið reyna á kunnáttu sína um verkalýðsmál, dægurmál og ýmis önnur mál.

Laugardagurinn hefst á vinnustofu Ólafs Stefánssonar, handboltahetju, þar sem þemað er ný bók hans, Gleymna óskin. Vinnustofan inniheldur bæði leikfyrirlestur með spuna, auk sögustundar, hugleiðslu og tónheilunar. Seinni part laugardags stendur skáldið og rapparinn Kött grá pje fyrir örsmiðjunni „Að skrifa og segja fokk, heilbrigð tjáskipti“, þar sem hann fjallar um skriftir, manngæsku og tjáningu í ákaflega bjöguðum skilningi.

Undir lok hátíðarinnar á laugardeginum munu Jónas Sig og Stefán Bogi setjast í sófann og spjalla um vel valin málefni sem þeir eru langt því frá sammála um. Í kjölfarið ætla Saga Garðars og Dóri DNA að skemmta gestum með uppistandi, þar sem þau rýna í samfélagsmál á stórskemmtilegan hátt. Hátíðinni lýkur með því að Saga býður gestum að taka þátt í að matbúa svokallaða Diskósúpu í boði 1862, Bakarísins við brúnna og Nettó, unnin úr mat sem annars hefði verið sóað, og geta gestir gætt sér á Diskósúpunni, við tóna frá Jónasi Sig.

 

Dagskrá Lýsu má finna hér.

Umhverfismálin áberandi á LÝSU

Fjölmörg viðfangsefni verða til umræðu á LÝSU en meðal þeirra eru umhverfismálin. Má þar nefna að Norðurlönd í fókus munu sýna heimildarmyndina UseLess, en hún fjallar um tísku- og matarsóun sem fer sífellt vaxandi og er orðið að stóru samfélags- og umhverfisvandamáli. Markmið myndarinnar er að vekja okkur til umhugsunar og veita innblástur um hvernig við, hvert og eitt, getum lagt okkar að mörkum og breytt litlum hlutum í hinu daglega lífi, sem geta skipt sköpum. Myndin verður sýnd í Hamraborg föstudaginn 7. september kl. 18.00. Að sýningu lokinni standa framleiðendur myndarinnar fyrir opinni umræðu um innihald myndarinnar. 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun verða einnig til umræðu á hátíðinni, en Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi munu kynna áætlanir ríkisstjórnar um innleiðingu markmiðanna á Íslandi. Norðurlönd í fókus í samstarfi við Norræna félagið vekja jafnframt athygli á verkefnum sem styðja heimsmarkmiðin auk þess sem tilkynntar verða tilnefningar til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2018. Þema verðlaunanna í ár er verndun lífsins í hafinu, sem er einmitt eitt af markmiðunum. Auk þessa mun Landvernd halda málþing um hlutverk og tækifæri sveitarfélaga í loftlagsmálum og Samfylkingin verður með kynningu og umræður um plastmengun í hafinu, áhrif hennar, og hvernig við sem þjóð og samfélagsþegnar getum unnið gegn henni. 

Drög að dagskrá hátíðarinnar má finna hér. 

Stefnir í fjölbreytta og spennandi dagskrá

Stór og smá félagasamtök og fyrirtæki, ásamt flestöllum stjórnmálaflokkum landsins taka þátt í hátíðinni og er dagskráin að taka á sig mynd. Landsþekktir skemmtikraftar og tónlistarmenn munu setja sinn svip á hátíðina og verða viðburðirnir af ýmsu tagi. Það stefnir því í þétta og spennandi dagskrá.

           Auk helstu stjórnmálaflokka landsins hefur fjöldi félagasamtaka og stofnana boðað komu sína. Flest þeirra standa fyrir einhverskonar viðburðum eða uppákomum en einnig verður til staðar umræðutorg þar sem gestir geta komið, leitað upplýsinga og spjallað. Þátttakendur sem þegar eru skráðir á Lýsu eru; Akureyrarakademían, Akureyrarbær, Arkitektafélag Íslands, Alþýðusamband Íslands, Bandalag íslenskra listamanna, Barnabókasetrið, Byggðastofnun, DíaMat – félag um díalektíska efnishyggju, Eining-Iðja, Eyþing, Farsæl öldrun, Festa, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Félag sjúkraþjálfara, Fiskistofa, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrennis, Forsætisráðuneytið, Grænni byggð – Landvernd, Háskólinn á Akureyri, Jafnréttisstofa, Krabbameinsfélagið, Landsamband íslenskra ungmennafélaga, Landssamtök íslenskra stúdenta, Listasafn Akureyrar, Neytendasamtökin, Norræna félagið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Rósenborg, Samband íslenskra sveitafélaga, Samiðn, Samtökin 78 og Skrifstofa Alþingis.

Forsætisráðherra og handboltahetja setja LÝSU – rokkhátíð samtalsins

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, mun setja LÝSU – rokkhátíð samtalsins sem fram fer í Hofi á Akureyri 7. og 8. september. Handboltahetjan Ólafur Stefánsson verður með hugvekju við setninguna en á laugardeginum mun hann standa fyrir vinnusmiðju. „Á LÝSU getum við rætt saman í ákveðnu óttaleysi og léttleika og sem manneskjur og það án þess að undirtónninn sé of alvarlegur þótt málefnin geti verið alvarleg. Mitt hlutverk er að færa leik inn í þetta í þeim tilgangi að hrista aðeins upp í fólki og gera það léttara. Ég ætla að vera með blöndu af kundalíni, spuna og sagnamennsku, kirtan og hugleiðslu; allt í einum hrærigraut,” segir Ólafur.

 

Ólafur segir Akureyri tilvalinn vettvang fyrir hátíð af þessu tagi. „Að koma norður er í raun ein forsenda þess sem við viljum ná fram, það er að skoða hlutina frá öðrum vinklum og heyra sjónarmið annarra. Það er líka bara svo margt frábært á Akureyri sem er í gangi sem Reykjavíkingar mættu gjarnan setja á sinn radar. Þetta verður frábært og ég hlakka mikið til.”

 

Allir stærstu stjórnmálaflokkar landsins sem og félaga- og hagsmunasamtök hafa boðað komu sína á LÝSU en ókeypis er inn á alla viðburði fyrir almenning. Hátíðin er haldin að norrænni fyrirmynd en álíka hátíðir eru Almedalen í Svíþjóð, Folkemødet í Danmörku og Arendalsuka í Noregi með þeim tilgangi að skapa samræðuvettvang á jafnréttisgrundvelli.

 

Nánari upplýsingar gefur

Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri LÝSU

thuridur@mak.is

Skráning hafin fyrir 2018

LÝSA býður öllum sem vinna að málefnum samfélagsins að vera með viðburði á hátíðinni. Stórir sem smáir aðilar sem standa í réttindabaráttu, hagsmunagæslu eða vinna á annan hátt að málefnum samfélagsins eiga erindi á hátíðina.

Á LÝSU er tilvalið að …

… varpa ljósi á verkefni sem unnið er að.

… upplýsa um niðurstöður kannana og rannsókna.

… senda út ályktanir um málefni.

Hægt er að nota frumlegar sem formlegar leiðir til að koma á samtali við þátttakendur og gesti, allt frá uppistandi til pallborðsumræðna.

Markmið hátíðarinnar er að hvetja til uppbyggjandi skoðanaskipta milli almennings, félagasamtaka og stjórnmálafólks. Á LÝSU gefst tækifæri til að varpa ljósi á málefni, eiga í samtali við almenning og ráðamenn og leita eftir stuðningi við hagsmunamál. Allir geta tekið þátt í hátíðinni. Einu skilyrðin eru þau að viðburðir hafi samfélagslega tengingu, séu opnir öllum og gestum að kostnaðarlausu. Hátíðin gekk áður undir nafninu Fundur fólksins.

Skipuleggjendur hátíðarinnar munu standa fyrir tónlistaratriðum, núvitundarsmiðju og öðrum uppá-

komum á hátíðinni. Meðal listamanna og sem koma fram í ár verða, Saga Garðarsdóttir, Kött Grá Pé, Hallgrímur Helgason, Auður Jónsdóttir og Snorri Helgason. Ólafur Stefánsson handboltakappi mun flytja hugvekju við setningu hátíðarinnar.

Hægt er að skrá viðburði hér á síðunni http://www.lysa.is/skraning/

Meðal þátttakenda síðustu ára eru:

Allir stærstu stjórnmálaflokkar landsins, ASÍ,  Öryrkjabandalag Íslands, BHM, Landvernd, Neytendasamtökin, Jafnréttisstofa, Bandalag íslenskra listamanna, Kennarasamband Íslands, Siðmennt, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Háskólinn á Akureyri, Íslandsdeild Norðurlandaráðs, SÍM, Mannvirkjastofnun, Grái herinn, Félag Sameinuðu þjóðanna, Blindrafélagið og Festa, auk fjölda annarra samtaka.