Forsætisráðherra og handboltahetja setja LÝSU – rokkhátíð samtalsins

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, mun setja LÝSU – rokkhátíð samtalsins sem fram fer í Hofi á Akureyri 7. og 8. september. Handboltahetjan Ólafur Stefánsson verður með hugvekju við setninguna en á laugardeginum mun hann standa fyrir vinnusmiðju. „Á LÝSU getum við rætt saman í ákveðnu óttaleysi og léttleika og sem manneskjur og það án þess að undirtónninn sé of alvarlegur þótt málefnin geti verið alvarleg. Mitt hlutverk er að færa leik inn í þetta í þeim tilgangi að hrista aðeins upp í fólki og gera það léttara. Ég ætla að vera með blöndu af kundalíni, spuna og sagnamennsku, kirtan og hugleiðslu; allt í einum hrærigraut,” segir Ólafur.

 

Ólafur segir Akureyri tilvalinn vettvang fyrir hátíð af þessu tagi. „Að koma norður er í raun ein forsenda þess sem við viljum ná fram, það er að skoða hlutina frá öðrum vinklum og heyra sjónarmið annarra. Það er líka bara svo margt frábært á Akureyri sem er í gangi sem Reykjavíkingar mættu gjarnan setja á sinn radar. Þetta verður frábært og ég hlakka mikið til.”

 

Allir stærstu stjórnmálaflokkar landsins sem og félaga- og hagsmunasamtök hafa boðað komu sína á LÝSU en ókeypis er inn á alla viðburði fyrir almenning. Hátíðin er haldin að norrænni fyrirmynd en álíka hátíðir eru Almedalen í Svíþjóð, Folkemødet í Danmörku og Arendalsuka í Noregi með þeim tilgangi að skapa samræðuvettvang á jafnréttisgrundvelli.

 

Nánari upplýsingar gefur

Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri LÝSU

thuridur@mak.is