Dagskrárfundur með þátttakendum

Dagskrárfundur var haldinn með þátttakendum Fundar Fólksins þriðjudaginn 9, ágúst. Góð mæting var á fundinn og stemmning góð meðal gesta. Á fundinum fór Ingibjörg Gréta Gísladóttir, verkefnastjóri yfir fjölbreytta dagskrá hátíðarinnar, skipulag í tjöldum og fundarherbergjum og gaf dæmi um dagskrá nokkurra þátttakenda.

Ný kynningarmyndbönd sem Þorsteinn Guðmundsson leikari gerði fyrir hátíðina voru frumsýnd á fundinum og var ekki að heyra annað en gestir hefðu gaman af hans frumlegu nálgun á hátíðina. Myndböndunum verður dreift á Facebooksíðu Fundar Fólksins fljótlega en Ingibjörg fór einmitt yfir mikilvægi þess að þátttakendur nýti sér stafræna miðla til að vekja athygli á hátíðinni og hjálpist að við að deila, like-a, og tísta efni.

Panell var settur upp á fundinum með þátttöku Írisar Stefaníu Skúladóttur, framkvæmdastjóra Listar án landamæra, Kolbrúnar Halldórsdóttur, forseta BÍL og Ingridar Kuhlman frá baráttusamtökunum París 1,5 og Ingibjörg var í hlutverki spyrils. Umræðurnar voru lifandi og fjörlegar og gott dæmi um vel heppnað samtal á Fundi Fólksins.

Ingrid sagði frá markmiði París 1.5 með þátttöku sinni á fundinum en baráttuhópurinn vill hafa áhrif á umræður um loftslagsmál og gera þau að kosningamáli í kosningunum í haust. Á hátíðinni mun hópurinn meðal annars vekja athygli á skýrslunni um græna hagkerfið og þeim 50 aðgerðum sem þar eru lagðar til og voru samþykktar af öllum þingmönnum Alþingis árið 2012 en lítið hefur heyrst af síðan. Stjórnmálamönnum gefst kostur á að koma í tjaldið til þeirra og segja frá því á 2 mínútum hverjar áherslur þeirra eru í loftslagsmálum.

Íris Stefanía er verkefnastjóri fyrir fimm félög fólks með fötlun sem standa saman að dagskrá á hátíðinni. Stolt-gangan verður þeirra stærsti viðburður en fatlað fólk ætlar að ganga fylktu liði frá Alþingishúsinu að Norræna húsinu laugardaginn 3. september. Dagskrá félaganna verður fjölbreytt en þau ætla meðal annars að vekja athygli á því að enginn stjórmálaflokkur er með auðlesið efni um stefnumál flokksins á heimasíðum sínum. Þar af leiðandi er stór hópur kjósenda sem ekki skilur stefnur flokkanna.

Það kom fram í máli Kolbrúnar Halldórsdóttur, forseta BÍL, að Fundur Fólksins er kjörið fundarform fyrir listamenn enda er bandalagið tengt inní sex fundi á hátíðinni. Meðal málefna sem listamenn ætla að ræða eru kjaramál en listamenn eru jaðarsettir á vinnumarkaðnum, passa illa inní hefðbundin stéttarfélög og eru ekki þátttakendur í samtali stjórnvalda og „aðila vinnumarkaðarins“.

Það kom fram hjá þeim öllum þremur að Fundur Fólksins er góður vettvangur til að eiga samtali við þingmenn en ekki síður er hátíðin tækifæri til að fræða fjölmiðla um hin ýmsu aðkallandi málefni og dýpka þannig umræðuna um þau  í samfélaginu.