Að vera þátttakendur í því hreyfiafli sem samfélagsumræðan er

Eitthvað gerist í fréttum og kannski tekur maður ekki eftir því eða kannski er atburðurinn svo yfirgengilegur að maður dembir sér strax á netið til að sjá hvað öllum hinum finnst um hann. Hvort fleiri deili skynjun manns – eða skynji jafnvel eitthvað margslungnara, meira, dýpra. Eða ekki.

Það er í senn speglun og fróun að lesa upplifun og skoðanir annarra á öllu því sem gerist. Líka því sem maður vissi ekki að hefði gerst eða sem gæti gerst í beinu framhaldi af því, sé eitthvað að marka pælingar höfundar skoðanapistilsins sem maður rakst á – kannski eftir að hafa lesið nokkra aðra sem spegluðu einungis manns eigin skoðanir eða þá afgerandi skoðanir einhvers á andstæðum meiði.

Þegar ég hugsa út í það, þá geri ég mér ekki alltaf grein fyrir að hversu miklu leyti skoðanir mínar eru sjálfsprottnar og að hversu miklu leyti kokkaðar upp undir áhrifum skoðanna annarra. En ég veit að þær væru grynnri og einslitari án áhrifa frá skoðunum annarra. Og um leið styrkari að því leytinu að þegar ég les eitthvað sem ég er hjartanlega ósammála, þá fer ég í huganum yfir rök mín og spegla þau í andstæðum rökum. Í því ferli styrkjast þau og dýpka jafnvel því inn á milli alls þess sem maður er ósammála getur stundum leynst sannleikskorn.

Stundum er sagt að það sé of mikið af skoðanapistlum í íslenskum fjölmiðlum á kostnað fréttaskýringa og dýpri greininga. Kannski er svolítið til í því – eða kannski mætti vera meira af fréttaskýringum, án þess að það sé á kostnað skoðanapistla. Því allur þessi fjöldi skoðanapistla er kór ólíkra radda sem takast á; syngja sumar einum rómi meðan aðrar kallast á. Án þessa kórs væri hljómurinn hjáróma.

Og stundum verður önnur rödd til þess að maður skiptir um skoðun.

Það er svo nauðsynlegt að leyfa sér að skipta um skoðun, ef þannig liggur á, eða dýpka skoðanir sínar með því að taka aðrar til íhugunar. Oft er því haldið gegn fólki ef það hefur eitt sinn aðhyllst ákveðna skoðun og svo skipt henni út fyrir aðra. En það að skipta um skoðun er einungis merki um að manneskjan leyfi sér að hugsa, endurmeta og sjá hluti í nýju ljósi. Að persónugera sig eftir skoðunum sínum er hins vegar hæpnara.

Nýverið létust tveir menn sem ég drakk stundum morgunkaffi með í Kaffifélaginu á Skólavörðustíg. Þeir Jónas Kristjánsson blaðamaður og Stefán Karl Stefánsson leikari. Hvorugur þeirra lá á skoðunum sínum. Þeir létu í sér heyra ef þeim misbauð eitthvað og túlkuðu upplifun sína af veruleikanum, réttlæti og ranglæti, með því að gagnrýna og benda á það sem betur mætti fara í samfélaginu. Ég á eftir að sakna þeirra beggja en líka þess að heyra hressandi álit þeirra.

Mér varð hugsað til þeirra þegar ég var beðin um að skrifa þessi orð. Þeir voru ekki bara missir fyrir sína nánustu heldur líka samfélagið. Þessir menn sem þorðu alltaf að benda á hugsanlegt ranglæti og standa með réttlætinu. Með meitluðu orðalagi og frjóum huga. Hugarheimi sem við fengum inngöngu í til að stækka okkar, hvort sem við vorum sammála eða ekki.

Í svona fámennu samfélagi skiptir hver kröftug rödd máli. Hún getur fengið svo mörgu áorkað, eins og þessir tveir menn voru vitnisburður um. Því eigum við öll að þora að íhuga, rökræða og tjá skoðanir okkar. Og hafa gaman að því að vera þátttakendur í því hreyfiafli sem samfélagsumræðan er.

Auður Jónsdóttir, rithöfundur.

Skráning hafin fyrir 2018

LÝSA býður öllum sem vinna að málefnum samfélagsins að vera með viðburði á hátíðinni. Stórir sem smáir aðilar sem standa í réttindabaráttu, hagsmunagæslu eða vinna á annan hátt að málefnum samfélagsins eiga erindi á hátíðina.

Á LÝSU er tilvalið að …

… varpa ljósi á verkefni sem unnið er að.

… upplýsa um niðurstöður kannana og rannsókna.

… senda út ályktanir um málefni.

Hægt er að nota frumlegar sem formlegar leiðir til að koma á samtali við þátttakendur og gesti, allt frá uppistandi til pallborðsumræðna.

Markmið hátíðarinnar er að hvetja til uppbyggjandi skoðanaskipta milli almennings, félagasamtaka og stjórnmálafólks. Á LÝSU gefst tækifæri til að varpa ljósi á málefni, eiga í samtali við almenning og ráðamenn og leita eftir stuðningi við hagsmunamál. Allir geta tekið þátt í hátíðinni. Einu skilyrðin eru þau að viðburðir hafi samfélagslega tengingu, séu opnir öllum og gestum að kostnaðarlausu. Hátíðin gekk áður undir nafninu Fundur fólksins.

Skipuleggjendur hátíðarinnar munu standa fyrir tónlistaratriðum, núvitundarsmiðju og öðrum uppá-

komum á hátíðinni. Meðal listamanna og sem koma fram í ár verða, Saga Garðarsdóttir, Kött Grá Pé, Hallgrímur Helgason, Auður Jónsdóttir og Snorri Helgason. Ólafur Stefánsson handboltakappi mun flytja hugvekju við setningu hátíðarinnar.

Hægt er að skrá viðburði hér á síðunni http://www.lysa.is/skraning/

Meðal þátttakenda síðustu ára eru:

Allir stærstu stjórnmálaflokkar landsins, ASÍ,  Öryrkjabandalag Íslands, BHM, Landvernd, Neytendasamtökin, Jafnréttisstofa, Bandalag íslenskra listamanna, Kennarasamband Íslands, Siðmennt, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Háskólinn á Akureyri, Íslandsdeild Norðurlandaráðs, SÍM, Mannvirkjastofnun, Grái herinn, Félag Sameinuðu þjóðanna, Blindrafélagið og Festa, auk fjölda annarra samtaka.