Ágrip af samræðum

Fundur Fólksins er vettvangur samræðna sem geta nýst við ákvarðanatöku í samfélaginu. Sú nýbreytni verður í ár að þátttakendum Fundar Fólksins sem skipuleggja umræður er gert að skila inn ágripi af þeim samræðum sem fara fram, spurningum og hugmyndum sem spretta upp.

Ágripin verða strax sett inn á vef hátíðarinnar og útprent hengd upp á fréttasnúrur hátíðarinnar og fundarherbergi þannig að áhugasamir geti lesið sér til um þær samræður sem fóru fram fyrr um daginn og geta gagnast til frekari umræðu á hátíðinni.

Eftir hátíðina verða ágripin gefin út á prenti og með stafrænum hætti svo áhugasamir aðilar, eins og þingmenn og fjölmiðlar geti áttað sig á hvaða málefni brenna á fólki og haldið áfram að vinna með þau.

Prentuðum útgáfum verður einnig skilað inn á Þjóðarbókhlöðu til varðveislu. Þá verður auðvelt fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar og aðra áhugasama að skoða hvaða samfélagsmálefni brunnu á þjóðinni árið 2016. Ætlunin er að ágripum af öllum umræðum verði safnað saman á Fundi Fólksins árlega hér eftir og því verður einnig áhugavert að skoða þróun umræðunnar í þjóðfélaginu um samfélags – og lýðræðismál.