Aðkoma Almannaheilla samtakanna að FUNDI FÓLKSINS

Ketill Berg Magnússon segir frá aðkomu Almannaheilla að FUNDI FÓLKSINS.

Samtökin eru formlegur framkvæmdaraðili FUNDAR FÓLKSINS árið 2016.

Hugmyndin hafði komið nokkrum sinnum Í stjórn Almannaheilla – samtaka þriðja geirans að við myndum halda á Íslandi lýðræðishátíð í anda slíkra hátíða á Norðurlöndum. Einhverjir stjórnarmenn höfðu farið á slíkar hátíðir þar og sáu hvað þetta er góð leið til að fjalla um stjórnmál á ferskan og uppbyggjandi máta. Þar taka almennir borgarar þátt í samræðum með stjórnmálafólki um framtíð samfélagsins og hvernig velja á viðfangsefnin á sanngjarnan máta.
Við í Almannaheillum urðum því afar ánægð þegar við fréttum að Norræna húsið hefði tekið frumkvæðið á síðasta ári og skipulagt Fund fólksins. Við buðum fram krafta Almannaheilla þar sem við erum regnhlífarsamtök almannaheillasamtaka í landinu. Við teljum að aðkoma ólíkra félagasamtaka á Fundi fólksins skipti sköpum. Fólk starfar í félagasamtökum út af einhverri hugsjón – oft einhverri hugsjón um betra samfélag. Það er því ótrúlega spennandi að búa til vettvang þar sem fólk með ólíkar (eða sömu) hugsjónir ræðir saman.
Stjórn Almannaheilla tók þá ákvörðun eftir vel heppnaðan Fund fólksins í fyrra að leggja sitt af mörkum til að Fundur fólksins yrði árviss lýðræðishátíð. Formaður Almannaheilla leiddi undirbúningshóp ólíkra aðila í vetur þar unnið var að því að fá sem breiðasta bakland til stuðnings Fundar fólksins. Það er ánægjulegt að Félagsmálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hefur veitt Fundi fólksins stuðning og það hefur Reykjavíkurborg líka gert. Við erum að vonast til að fjármögnunin verði kláruð fljótlega og að stóru regnhlífasamtökin á íslenskum vinnumarkaði komi þar að.
Það verður spennandi að taka þátt í Fundi fólksins þann 2.-3. september nk. Það er mikil gerjun í íslenskum stjórnmálum. Forsetakosningar á næstunni og alþingiskosningar hafa verið boðaðar í haust. Gera má ráð fyrir að stjórnmálafólk verði áhugasamt um að taka þátt í umræðum um stjórnmál og vonandi fær það tækifæri á Fundi fólksins til að setjast niður með fólki af ýmsum toga og læra. Verkefnastjóri Fundar fólksins er á fullu þessa dagana að hvetja félög til að skrá sig til leiks sem fyrst og hugsa um nýjar leiðir til að standa þar fyrir umræðum um sín baráttumál. Með gleði og sköpunarmátt að vopni verður Fundur fólksins í ár stórskemmtileg lýðræðishátíð.

Ketill Berg Magnússon
Stjórnarformaður Almannaheilla, Samtök þriðja geirans